20. Apr 2019
»Allir vilja góða kennara!«
Menntavísindasvið Háskóla Íslands stendur nú öðru sinni fyrir átakinu »Hafðu áhrif« en fyrst var farið af stað með það fyrir tveimur árum. Að sögn Jóh...

Menntavísindasvið Háskóla Íslands stendur nú öðru sinni fyrir átakinu »Hafðu áhrif« en fyrst var farið af stað með það fyrir tveimur árum. Að sögn Jóhönnu Einarsdóttur, forseta Menntavísindasviðs, var kveikjan að átakinu neikvæð umræða um kennarastarfið í samfélaginu á þeim tíma, ekki síst í fjölmiðlum. »Undanfarin ár og misseri hefur umræðan alltof mikið snúist um það hvað þetta sé illa launað og vanþakklátt starf. Því viljum við breyta,« segir Jóhanna.

Tilgangurinn er sumsé að draga upp jákvæðari mynd af starfinu og auka áhugann á því. »Þetta tókst ótrúlega vel fyrir tveimur árum og við fengum mjög jákvæð viðbrögð frá almenningi,« segir Jóhanna. »Þess vegna ákváðum við að gera þetta aftur núna. Viðbrögðin koma okkur ekki á óvart enda vilja allir góða kennara!«

Umræðan hefur breyst

Hún segir umræðuna klárlega hafa breyst til hins betra á þessum tveimur árum og við fáum nú í ríkari mæli jákvæðar fréttir af skólastarfi í landinu og jákvæðum þáttum kennarastarfsins. »Kennarastarfið er skemmtilegt, skapandi og gefandi starf sem er til þess fallið að hafa mikil áhrif á einstaklinga og samfélagið í heild,« segir Jóhanna.

Meðal þess sem fólk er hvatt til að gera er að hugsa um kennarana sína gegnum tíðina og meta á hvern hátt þeir hafi haft jákvæð og hvetjandi áhrif á líf þess. Fólk er beðið að tilnefna kennara á heimasíðu átaksins. Síðast bárust um tvö þúsund tilnefningar. Fimm kennarar hlutu viðurkenningu Menntavísindasviðs fyrir tveimur árum og Jóhanna reiknar með að svipaður fjöldi verði fyrir valinu að þessu sinni.

Öruggt framtíðarstarf

Hvort sem það er átakinu eða einhverju öðru að þakka þá fjölgaði kennaranemum við Háskóla Íslands nokkuð á síðasta ári. Jóhanna segir námið greinilega vera farið að trekkja meira að en áður og vonar að sú þróun haldi áfram næstu árin.

Möguleikar háskólamenntaðs fólks á atvinnu eftir útskrift hefur verið talsvert til umræðu að undanförnu og því miður eru horfurnar ekki alls staðar góðar. Jóhanna segir þetta sem betur fer ekki eiga við um kennara. Ný útskrifaðir kennarar geti yfirleitt gengið að vinnu vísri. »Það skiptir auðvitað miklu máli þegar fólk velur sér nám og þróunin er sú að þessi þáttur vegur alltaf þyngra þegar fólk velur sér háskólagrein,« segir hún.

Að sögn Jóhönnu eru kennaranemar upp til hópa mjög meðvitaðir um umræðuna um starfið og hafa þeir verið óþreytandi við að vekja athygli á kostum þess; svo sem með því að koma fram í fjölmiðlum. Hún fagnar þessu frumkvæði.

Umræðan um launamál kennara hefur áratugum saman verið á neikvæðum nótum. Jóhanna segir mikið hafa áunnist í þeim málum undanfarin ár, ekki síst varðandi leikskólakennara sem sjáist best á því að rúmlega 50% aukning hafi orðið í grunnnámið milli ára.

Að sögn Jóhönnu er það ánægjuleg þróun að fólki með BA-gráðu í öðrum fögum, svo sem tungumálum, sálarfræði og fleiru, fjölgar jafnt og þétt í kennaranáminu. Þetta fólk vill þá bæta við sig tveimur árum og fá kennararéttindi. »Það bendir til þess að starfið sé að verða eftirsóknarverðara en það hefur verið.«

Fækkun karla áhyggjuefni

Körlum hefur fækkað jafnt og þétt í faginu og Jóhanna telur að sú þróun sé áhyggjuefni. »Þetta er þróunin í löndunum í kringnum okkur og við höfum ekki ennþá fundið leiðir til að sporna við henni. Finnar eru þó undantekning, enda er kennarastarfið þar mjög hátt metið. Auðvitað viljum við að börn hafi fjölbreyttar fyrirmyndir til að samsama sig við. Bæði kynin þurfa að eiga samskipti við karl- og kvenkennara sem hafa jafnrétti að leiðarljósi.«

Hún segir þetta sérstakt áhyggjuefni á leikskólastiginu og í fyrstu bekkjum grunnskóla. Afar fáir karlmenn starfi sem leikskólakennarar og sæki í það nám. Körlunum fjölgi eftir því sem ofar í skólakerfið dregur og þeir séu flestir á efstu stigum námsins.

»Við höfum markvisst reynt að vekja athygli á þessu og karlkyns kennararanemar hafa verið mjög duglegir við það sjálfir. Karlahópur innan leikskólakennarafélagsins hefur einnig verið mjög dugmikill. En betur má ef duga skal!«


>> Átakinu »Hafðu áhrif« er ætlað að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélagið. Aðstandendur segja átakið hafa skilað tilætluðum árangri.
Morgunblaðið | Sunnudagur | Blað D | Supplement
Efst |  Upphaf